Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Góð þátttaka á Flateyri

Í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar um eflingu byggðar og atvinnusköpunar á Vestfjörðum fékk Fræðslumiðstöð Vestfjarða fjárframlag til námskeiðahalds á Flateyri. Fræðslumiðstöðin fékk húsnæði undir starfsemina í Sólborg og hefur verið mikið líf þar alveg frá því sú aðstaða var opnuð í byrjun október.

Flateyringum og öðrum Önfirðingum hefur staðið til boða að sækja ýmiskonar námskeið sem þeir hafa verið duglegir að nýta sér. Fyrsta námskeiðið sem fór af stað var íslenska fyrir útlendinga. Þar var boðið upp á nýja nálgun þar sem fléttað er saman málakennslu og sjálfstyrkingu og tungumálið æft í gegnum leik og söng. Lokaafurðin er leikrit sem þátttakendur hafa verið að æfa og verðu sýnt innan tíðar.

Haldin hafa verið tvö tölvunámskeið fyrir fólk með litla tölvukunnáttu og hafa þau verið vel sótt. Fyrirhuguð eru tvö tölvunámskeið í viðbót, annað ætlað pólverjum og fer kennsla fram á pólsku en á hinu verður farið í farið í myndir og myndvinnslu.

Snemma í nóvember var haldið námskeið þar sem þátttakendur lærðu að nota þæfða íslenska ull til að klæða og skreyta lampa. Nú eru í gangi námskeið í þýsku, bókhaldi og vélgæslu og er þátttaka í þeim öllum mjög góð.

Loks má geta þess að á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember tók Fræðslumiðstöðin þátt í dagskrá um Jónas Hallgrímsson í samvinnu við Leikfélagið, Grunnskólann og kirkjuna.

image
Sólborg - námsver Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Flateyri.
Deila