Gengur illa að skilja ársreikninginn?
Það getur vafist fyrir fólki að skilja hvaða upplýsingar ársreikningar fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka innihalda og hvernig ber að túlka þær. Þriðjudaginn 21. október gefst tækifæri til þess að bæta þar úr því þá hefst námskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða um lestur ársreikninga.
Á námskeiðinu verða grunnhugtök og forsendur ársreikninga kynntar, uppbygging ársreiknings útskýrð og fjallað um samhengið milli einstakra kafla. Lögð verður áhersla á að skýra vel út hugtökin rekstur og efnahagur, einnig verður farið í lestur sjóðstreymis og hvernig það tengist bæði rekstrar- og efnahagsreikningi.
Í lok námskeiðsins eiga þátttakendur að hafa öðlast grunnþekkingu í lestri ársreikninga og skilning á þeim upplýsingum sem þar er að finna um rekstrarafkomu og efnahag, þekkingu sem þeir geta síðan byggt á eftir áhuga og þörfum.
Kennari á námskeiðinu er Þuríður Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Námskeiðið er tvö skipti, kennt þriðjudagana 21. og 28. október kl. 19-21 og kostar 8.700 kr. Kennt er í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði. Hægt er að fjarkenna námskeiðið til þeirra staða sem hafa fjarfundabúnað.