Fyrstu námskeið haustsins
Fræðslumiðstöðin er að senda út blöðung í hús á norðanverðum Vestfjörðum til að kynna næstu námskeið á því svæði. Það er óhætt að segja að fjölbreytnin sé í fyrirrúmi strax á fyrstu vikum vetrastarfsins.
Laugardaginn 13. september hefst íslenskukennsla fyrir Taílendinga og verður að þessu sinni kennt í Bolungarvík.
Miðvikudaginn 17. september byrjar 30 kennslustunda bókhaldsnámskeið og daginn eftir, fimmtudaginn 18. september, verður kynningarfundur á Ísafirði fyrir þá sem ætla að sækja íslenskukennslu þar.
Laugardaginn 20. september getur áhugafólk um framandi matarmenningu sótt námskeið í indverskri matargerð.
Mánudaginn 22. september verður fyrirlestur um umgengni við blinda og sjónskerta. Þann dag er einnig kynning á námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem boðið verður upp á í vetur. Þar er um að ræða nám á bilinu 60-300 kennslustundir ætlað fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla en vill annað hvort komast af stað í almennu námi eða eflast í starfi.
Þriðjudaginn 23. september hefst svæðisleiðsögunám, miðvikudaginn 24. er boðið upp á hraðnámskeið í þýsku og daginn eftir, þann 25. hefst enska fyrir byrjendur eða þá sem hafa lítinn grunn í málinu.
Fræðslumiðstöðin hvetur áhugasama að skrá sig sem fyrst. Nánari upplýsingar um hvert námskeið er að finna hér á vefnum undir námskeið. Einnig í síma 456 5025.