Frí námskeið í samstarf við starfsmenntasjóði
Eins og síðustu ár er Fræðslumiðstöðin í samstarfi við nokkra starfsmenntasjóði sem felur það í sér að fólk sem á aðild að þeim sjóðum í gegnum sín stéttarfélög getur sótt námskeið sér að kostnaðarlausu.
Fyrst skal nefna samstarf við Ríkismennt og Sveitamennt sem felst í því að þeir sjóðir greiða þátttökugjöld fyrir sitt fólk á öll starfstengd námskeið. Hvað telst starfstengt námskeið er sameiginlegt mat starfsmanns og yfirmanns og metið hverju sinni. Þessi möguleiki hefur komið mörgum vel en samkomulag nær til þess fólks sem vinnur hjá ríki eða sveitarfélögum og er í VerkVest eða Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur.
Aðrir sjóðir hafa þann háttinn á að velja tiltekin námskeið sem þeir vilja gefa sínum fólki kost á að sækja frítt. Sameyki, áður SFR, býður sínu fólki að sækja tvö námskeið sér að kostnaðarlausu nú á haustönn. Þetta eru námskeiðin Listin að lifa og Endurminningarskrif.
Starfsmennt hefur ákveðið að greiða þátttökugjöld fyrir þá sem eru í félagsmenn í aðildarfélögum Starfsmenntar á námskeiðið Enska fyrir atvinnulífið. Þetta á við það fólk sem er í FosVest og Sameyki (að Orkubúi Vestfjarða undanskildu). Athugið að þeir sem vilja nýta sér þetta þurfa að skrá sig á vef Starfsmenntar, smennt.is en ekki hér á vef Fræðslumiðstöðvarinnar.
Eftir sem áður endurgreiða allir starfsmenntasjóðir hluta þátttökugjalda á önnur námskeið en viðmið og reglur hvers sjóðs eru þó mismunandi. Allir sem eru á vinnumarkaði eru eindregið hvattir til að kynna sér hvaða rétt þeir hafa til endurgreiðslu og nýta sér hann.