Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Fréttatilkynning frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir veturinn 2008 - 2009 er kominn út. Hann hefur verið settur á heimasíðu Fræðslumiðstöðvarinnar og verður honum dreift í öll hús á Vestfjörðum næstu daga. Námsvísirinn er hér
Framboð námskeiða hefur aldrei verið meira en í vetur. Í bæklingnum eru kynnt 66 námskeið eða námsleiðir sem haldin verða víðs vegar um Vestfirði. Auk þess mun Fræðslumiðstöðin setja upp fleiri námskeið eftir því sem óskir berast um.

Starfsemi miðstöðvarinnar hefur aukist ár frá ári og mun vaxa enn frekar á komandi starfsári. Eftir stefnumótunarvinnu sem farið var í á vormisseri má segja að Fræðslumiðstöð Vestfjarða sé í útrás. Í vor voru María Ragnarsdóttir á Patreksfirði, Dagný Sveinbjörnsdóttir á Ísafirði og Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Hólmavík ráðnar í fast starf sem verkefnastjórar. Þá hafa Fræðslumiðstöðin og Menntaskólinn á Ísafirði eflt samstarf sitt og munu meðal annars vinna saman að eflingu fjarkennslu. Guðjón Torfi Sigurðsson og María Ragnarsdóttir munu stýra því verkefni.
Fræðslumiðstöðin hefur eflt náms- og starfsráðgjöf meðal annars með sérstökum fjárveitingum til mótvægisaðgerða og mun jafnhliða þróa svokallað raunfærnimat, þar sem markmiðið er að meta reynslu og kunnáttu fólks inn í skólakerfið eða á vinnumarkaði.

Verkefnin hafa því aldrei verið fleiri og með nýja og skýra framtíðarsýn að leiðarljósi hefur Fræðslumiðstöðin blásið til sóknar í fullorðinsfræðslu á Vestfjörðum.

Deila