Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samstarf við Hagvang
Föstudaginn 10. febrúar s.l. var undirritaður samstarfssamningur milli Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Hagvangs ehf.
Með samninginum lýsa aðilar vilja sínum til nánara samstarfs um þjónustu við fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum. Fræðslumiðstöðin hefur boðið aðstoð við greiningu fræðsluþarfa og gerð fræðsluáætlana og Hagvangur hefur verið að hasla sér völl við margskonar ráðgjöf og þjálfun.
Vilji samningsaðila er að efla markaðsstarf sitt á Vestfjörðum og bjóða fyrirtækjum og stofnunum meiri og betri þjónustu.
Á meðfylgjandi mynd innsigla þau Katrín S. Óladóttir framkvæmdastjóri Hagvangs og Smári Haraldsson forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða samstarfið með handabandi. Í baksýn eru vottar að atburðinum; þau Elfa Svanhildur Hermannsdóttir verðandi forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar og Guðjón Svansson ráðgjafi hjá Hagvangi, en þau munu bera hita og þunga af framkvæmd samningsins.