Fiskvinnslunámskeið á Suðureyri
Í gær, fimmtudaginn 7. janúar, lauk starfsfræðslunámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk á Suðureyri. Fyrirtækið Íslandssaga notaði tækifærið þegar vinnsla féll niður á milli hátíðanna og í upphafi nýs árs og sendi starfsfólk sitt í nám; bæði 40 klukkustunda grunnnám og 8 klst. viðbótarnám. Auk starfsfólks Íslandssögu tóku nokkrir starfsmenn úr fyrirtækinu Klofningi námið.
Grunnnáminu luku 37 manneskjur þar af 4 úr Klofningi og viðbótarnáminu 42, en nokkrir höfðu tekið grunnnámið áður.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða útvegaði kennara, túlka og námsefni.
Kennt var í Bjarnarborg, húsi Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Starfsfræðslunámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk er ætlað að efla starfsfólk fyrirtækjanna bæði faglega og persónulega og skapa þannig hæfara starfsfólk. Námið er bundið kjarasamningum og veitir launahækkun.
Meðfylgjandi myndir eru frá námskeiðunum.