Blómstraðu á Patró
Jóna Björg Sætran menntunafræðingur verður með námskeiðið Blómstraðu! í Þekkingarsetrinu Skor á Patreksfirði miðvikudaginn 14. maí n.k.
Á námskeiðinu færðu innsýn í hvernig þú getur haft áhrif á vellíðan þína og velgengni á ýmsum sviðum með meðvitaðri stjórnun hugsana. Allt hefst á einni hugsun - tilfinningar þínar ráðast að miklu leyti af hugsunum þínum.
Þú getur aðeins hugsað eina hugsun í einu. Breyttu því hvernig þú hugsar og þú munt geta breytt lífi þínu því þú ert það sem þú hugsar, upplifir af tilfinningu - og framkvæmir.
Jóna Björg er upphaflega menntaður grunnskóla- og framhaldsskólakennari, hefur langa reynslu af kennslu og kennslugagnagerð og starfaði m.a. um tíma sem námstjóri í dönsku á vegum Menntamálaráðuneytisins.
Í dag eru enn gefnar út nokkrar kennslubækur í dönsku sem hún hefur samið fyrir grunnskóla- og framhaldsskóla. Um átta ára skeið tók hún sér hvíld frá kennslunni, keypti bókabúð ásamt eiginmanni sínum og gerðist þá bókabúðakaupmaður í ein átta ár. Þegar matvöruverslanir tóku upp á því að selja jólabækurnar á miklum afslætti með jólasteikinni voru bókabúðirnar sem þá voru orðnar tvær seldar og Jóna Björg sneri sér aftur að kennslunni.
Jóna Björg hefur unnið með árangursfræði allt frá 1998 þegar hún fékk hópþjálfun hjá Brian Tracy International hér á landi og gerðist síðan leiðbeinandi á árangursnámskeiði Brian Tracy "Phoenix, - leiðinni til hámarksárangurs". Í kjölfarið ákvað hún að fara í framhaldsnám í fjarnámi samhliða kennslunni og lauk meistaragráðu í menntunarfræðum vorið 2004 og stofnaði síðan kennslu- og ráðgjafafyrirtækið Námstækni ehf. www.namstaekni.is þar sem lögð er áhersla á að bjóða námskeið og ráðgjöf til að aðstoða fólk við að ná enn meiri árangri á ýmsum sviðum lífs síns.
Fyrsta verkefni hennar var þá að læra og fá þjálfun í að kenna PhotoReading, öfluga lestrar- og námstækni þar sem lesandinn lærir að innbyrða mikið magn af texta á skömmum tíma og vinna með svokölluð hugakort. Sjá nánar á www.photoreading.is
Í tengslum við vinnu sína í árangursfræðum setti Jóna Björg saman sjálfseflingar- og árangursnámskeiðið Blómstraðu! sem hefur nú verið haldið í ýmsum stærðum og formum bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni allt frá því haustið 2004. Núna síðar í apríl er væntanleg bók Jónu Bjargar sem er byggð á þessu námskeiði og ber bókin titilinn; Blómstraðu! Njóttu þess að vera þú!
Á síðustu árum hefur Jóna Björg sótt símenntun sína varðandi árangursfræði til frömuða á því sviði erlendis, einkum í Bandaríkjunum og Kanada. Þannig hefur hún kynnst ýmsum þekktum einstaklingum á sviði árangursfræða, ma. einstaklingum sem í dag eru þekktir á Íslandi vegna þátttöku í myndbandinu og bókinni The Secret, "Leyndarmálinu".
Árið 2005 hóf Jóna Björg að nema Feng Shui fræði undir handleiðslu Marie Diamond Feng Shui meistara - en Marie Diamond er meðal leiðbeinendanna á The Secret. Í dag starfar Jóna Björg ma. sem ráðgjafi í Feng Shui og starfar mjög náið með Marie Diamond. Á www.fengshui.is er hægt að fá ýmsar upplýsingar um ráðgjafaþjónustuna en Jóna Björg hefur nú í um eitt ár boðið upp á Feng Shui ráðgjöf á einkaheimilum, fyrirtækjum, verslunum og stofnunum. Einnig er boðið upp á námskeið í grunnþáttum Feng Shui.
Auk námskeiðahalds, ráðgjafar og fyrirlestra fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki starfar Jóna Björg einnig með fáeina einstaklinga í einkaráðgjöf, svokallaðri markþjálfun. Upplýsingar um markþjálfun er að finna á www.coach.is
Ef áhugi er fyrir einkaráðgjöf varðandi Feng Shui er Jóna Björg tilbúin að bjóða upp á hana.