Árið 2015 byrjar með réttindanámi
Árið 2015 byrjar með réttindanámi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða.
Fimmtudaginn 15. janúar verður kynning á smáskipanámi en slíkt nám hefur verið kennt hjá miðstöðinni í mörg ár og alltaf notið vinsælda. Smáskipanám gefur rétt til að fá útgefið skírteini sem skipstjóri/stýrimaður á skipum 12 metrar og styttri að skráningarlengd, m.v. að hafa lokið 12 mánaða siglingatíma. Kynningin verður í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði kl. 20:00 og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta. Fyrirhugað er að kennsla hefjist þriðjudaginn 20. janúar.
Laugardaginn 17. janúar kl 9 hefst námskeið í vélgæslu í samstarfi við Guðmund Einarsson kennara. Námskeiðið veitir rétt til að vera vélavörður á skipum allt að 12 metrum að skráningarlengd og með vélarafli allt að 750 kW. Námskeiðið er 85 kennslustundir og verður kennt laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. janúar kl. 9-16 og mánudaginn 19. janúar frá kl. 16. Framhaldið verður ákveðið í samráði við þátttakendur. Hægt er að skrá sig hvort heldur sem er hjá Fræðslumiðstöðinni hér á vefnum eða í síma 456 5025 eða hjá Guðmundi í síma 896 3697.
Fimmtudaginn 22. janúar verður kynning á viðbótarnámi í vélstjórn. Þetta er í þriðja skipti sem Fræðslumiðstöðin í samvinnu við Menntaskólann á Ísafirði býður upp á slíkt nám, en það er ætlað þeim sem lokið hafa vélgæslunámi eins og því sem getið er um hér að ofan, og vilja auka réttindi sín. Námið er kennt á tveimur önnum og lýkur því haustið 2015. Á kynningarfundinum verður farið yfir fyrirkomulag námsins og skipulag, inntökuskilyrði og fleira hagnýtt. Fundurinn verður í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði kl. 20:00 og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.
Eins og alltaf eru þessi námskeið auglýst með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist. Áhugsamir eru því hvattir til að kynna sér málið og skrá sig sem fyrst þannig að ekki komi til þess að fella þurfi niður námskeið.