Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Allir geta ræktað sínar eigin mat- og kryddjurtir

Nú er rétti tíminn til að byrja að sá mat- og kryddjurtum sem á að rækta í sumar. Laugardaginn 26. mars n.k. verður haldið námskeið um mat- og kryddjurtir hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Sama námskeið var haldið síðasta vor og var það samdóma álit þátttakenda þá að námskeiðið hefði verið afar gagnlegt.

Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um sáningu, ræktun og umönnun mat- og kryddjurta. Farið verður yfir sjúkdóma og skordýr sem hrjá mat- og kryddjurtir og hvernig best er að verjast þeim. Fjallað verður um nýtingu jurtanna og geymsluaðferðir og fara þátttakendur heim með gómsætar uppskriftir og góðar hugmyndir.

Kennari á námskeiðinu er Auður Ottesen garðyrkjufræðingur og ritstjóri tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn. Auður hefur mikla reynslu á þessu sviði og hefur haldið fjölmörg námskeið um ýmislegt sem snýr að ræktun.

Námskeiðið verður haldið í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði. Það hefst kl. 10:30 og stendur til kl. 16:00. Verð fyrir námskeiðið er 10.500 kr.
Deila