Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Aðalfundur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða 2011

Þriðjudaginn 21. júní s.l. var haldinn aðalfundur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir árið 2011. Á fundinum voru lagðir fram ársreikningar fyrir árið 2010 og skýrsla um starfsemina.

Starfsemi miðstöðvarinnar jókst talsvert á milli áranna 2009 og 2010. Stafar það bæði af auknu atvinnuleysi og samstarfi við Vinnumálastofnun um námsúrræði vegna þess, en einnig af vaxandi áhuga fólks á námi.

Árið 2010 hélt Fræðslumiðstöðin 114 námskeið (106 árið 2009), samanlagður fjöldi þátttakenda var 1.260 (1.102), kennslustundir voru 3.516 (3.016) og nemendastundir 41.164 (30.783).

Fyrirferðarmestar voru námsskrár Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem líka er kallað annað tækifæri til náms vegna þess að þessar námsskrár eru sérstaklega teknar saman fyrir fólk með stutta skólagöngu. Voru námsskrárnar um 42% kennslustunda. Hefur kennsla á námsskránum vaxið jafnt og þétt síðastliðin 4 ár. Íslenska fyrir útlendinga hefur hins vegar dregist saman.

Flestir þátttakendanna voru frá Ísafirði og Hnífsdal. Miðað við fólksfjölda voru þó Súðvíkingar hlutfallslega duglegastir að sækja nám hjá Fræðslumiðstöðinni.

Á árinu 2010 veitti Fræðslumiðstöðin 472 viðtöl hjá náms- og starfsráðgjafa samanborðið við 195 viðtöl árið 2009.

Heildartekjur Fræðslumiðstöðvarinnar árið 2010 voru tæpar 84 milljónir króna samanborið við tæpar 73 milljónir árið 2009. Heildargjöld voru um 78,5 milljónir króna en um 69 milljónir árið 2009. Rekstrarniðurstaða fyrir utan fjármagnsliði og afskriftir var því jákvæð um 5,3 mkr (um 6% af veltu). Samsetning tekna var þannig að þátttökugjöld voru tæp 20%, framlög vegna samninga um kennslu og ráðgjafar um 45%, framlög af fjárlögum um 30% og aðrar tekjur um 5%.

Um síðastliðin áramót voru 9 fastráðnir starfsmennn hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í 6 stöðugildum. Að auki var náms- og starfsráðgjafi verkefnaráðin í um hálfu stöðugildi. Þá komu um 90 manns að kennslu hjá miðstöðinni og samsvarar kennsla þeirra um 4 stöðugildum. Alls hefur Fræðslumiðstöðin skapað um 9 árstöðugildi á árinu 2010.

Til að reyna að þjóna sem best öllum vestfirðingum sem búa á Vesfjörðum er Fræðslumiðstöðin með starfsstöðvar á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði.

Að Fræðslumiðstöðinni standa nú 8 aðilar sem allir starfa á fjörðungsvísu. Hefur aðilum fækkað um 2 frá upphafi, vegna þess að tveir stofnaðilanna hafa verið lagðir niður. Vegna þess hefur verið ákveðið að gefa nýjum aðilum tækifæri til að koma að miðstöðinni um næstu áramót.
Deila