Fræðslumiðstöðin
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
kt. 511199-2049
Suðurgata 12, 400 Ísafjörður
Sími: 456 5025 - Fax: 456 5066
Fræðslumiðstöð Vestfjarða er sjálfseignarstofnun stofnuð árið 1999 og starfar á grundvelli laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1998. Aðilar að Fræðslumiðstöðinni eru; Alþýðusamband Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Byggðasamlag Vestfjarða, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Menntaskólinn á Ísafirði, Náttúrustofa Vestfjarða, Útvegsmannafélag Vestfjarða og Vinnuveitendasamband Vestfjarða.
Markmið Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er að auðvelda íbúum á Vestfjörðum símenntun og þátttöku í námi af ýmsu tagi í formi styttri almennra námskeiða, endurmenntunarnámskeiða og starfstengdra námskeiða. Fræðslumiðstöð Vestfjarða þjónustar einstaklinga, hópa, fyrirtæki og stofnanir hvar sem er á Vestfjörðum. Í námstilboðum miðstöðvarinnar er markvisst unnið að því að efla færni fólks og bæta þannig stöðu þess á vinnumarkaði. Skipulag námsins tekur bæði mið af þörfum vinnandi fólks og atvinnulífsins hverju sinni og er lögð áhersla á kennsluaðferðir sem henta fullorðnu fólki.
Miðstöðin er með skrifstofur á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði en býður upp á námskeið þar sem þörf er á og þátttaka fæst.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða er með þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem meðal annars kveður á um að miðstöðin fylgi gæðakerfi og gæðamati sem FA þróar. Fræðslumiðstöð Vestfjarða uppfyllir viðmið EQM um gæði í fræðslustarfi og hefur sótt um til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að verða viðurkenndur fræðsluaðili.
Fræðslumiðstöðin er félagi í Kvasir sem eru samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og í Leikn sem eru samtök fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi.