Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Slit Landnemaskólans

Þann 24. apríl 2007 útskrifaðist hópur Taílendinga úr fyrri hluta Landnemaskólans en hann hefur staðið yfir frá því í febrúar síðastliðinn. Landnemaskólinn samanstendur af 120 tíma námi í íslensku, samfélagsfræði, tölvunámi og sjálfsstyrkingu. Hann var þróaður af Mími - símenntun og gefinn út í námskrá hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi Landnemaskólann til 10 eininga í framhaldsskólum. Fjármagn til kennslunnar kom frá menntamálaráðuneytinu í gegn um Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Að þessu sinni var fyrri hlutinn kenndur; alls 60 kennslustundir. Aðaláherslan var lögð á að auka orðaforða og framburð á íslensku máli. Reynt var að hafa kennsluna sem fjölbreyttasta og gera námið skemmtilegt. Söngkennari kenni íslenska ljóðatexta sem nemendur sungu síðan, talmeinafræðingur leiðbenti um framburð og grunnskólakennari sá um að auka orðaforðan og leiðbenti um stafsetningu og málfræði. Að sögn nemenda og kennara gekk þetta samstarf mjög vel og var oft glatt á hjalla.

Einnig heimsóttu nemendurnir nokkrar stofnanir, s.s Bókasafnið þar sem nemendurnir kynntust því bókaúrvali sem til er þar á þeirra móðurmáli og Fjölmenningasetrið þar sem þeir fengu fræðslu um hvar og hvernig þeir geta leitað upplýsinga og fengið fyrirgreiðslu ef á þarf á halda. Á sjálfan útskriftardaginn voru Tónlistarskólinn og Sjóminjasafnið heimsótt og farið í heimahús þar sem borið var fram veisluborð með kræsingum frá Taílandi og þjóðlegt íslenskt kaffibrauð. Bandarísk menning var ekki langt undan því í útskriftina komu tveir uppáklæddir kúrekar frá Dansskóla Evu og leiðbeindu námsmönnum og leiðbeinendum.

Sigurborg Þorkelsdóttir hafði umsjón með Landnemaskólanum fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.



Meðfylgjandi mynd er af útskriftarhópum ásamt forstöðumanni og kennurum.
Deila