Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Raunfærnimat í skipstjórn

Smákaffipása á milli matsviðtala. Einn hefur lokið og næsti tilbúinn. F.v. Agnar Ebeneser Agnarsson, Björn Hafberg ráðgjafi, Björgvin Þór Steinsson matsaðili og Árni Freyr Elíasson.
Smákaffipása á milli matsviðtala. Einn hefur lokið og næsti tilbúinn. F.v. Agnar Ebeneser Agnarsson, Björn Hafberg ráðgjafi, Björgvin Þór Steinsson matsaðili og Árni Freyr Elíasson.

Um síðustu helgi lauk 21 maður raunfærnimati í skipstjórnargreinum hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Áður höfðu 7 lokið matinu hjá miðstöðinni.  Þeir sem gengust undir raunfærnimatið luku að meðaltali rúmlega 6 áföngum og fengu að meðaltali 12 einingar metnar.  Langflestir þeirra stunda skipstjórnarnám við Menntaskólann á Ísafirði og fá staðna áfanga úr raunfærnimatinu metna inn í það nám. Matsaðilar voru þeir Björgvin Þór Steinsson og Kjartan Örn Kjartansson kennarar við Skipstjórnarskóla Íslands. Raunfærnimatið var hluti af átaksverkefninu um hækkun menntunarstigs í Norðvesturkjördæmi og fjármagnað af Fræðslusjóði framhaldsfræðslunnar sem er í umsjá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Í skipstjórnargreinum er að hámarki er hægt að gangast undir raunfærnimat í 22 einingum í samtals 10 áföngum. Til að geta gengist undir matið þurfa menn að vera orðnir 25 ára og hafa verið að minnsta kosti 1125 daga lögskráðir til sjós. Raunfærnimat í skipstjórnargreinum var þróað af símenntunarmiðstöðinni Visku í Vestmannaeyjum og var Sólrún Bergþórsdóttir, náms- og starfsráðgjafi miðstöðvarinnar til ráðgjafar við allt ferlið.

Flestir þátttakendanna voru af norðanverðum Vestfjörðum. Áður höfðu 14 manns í kjördæminu lokið raunfærnimati í skipstjórnargreinum hjá símenntunarmiðstöðinni Visku í Vestmannaeyjum, þar af 8 af Vestfjörðum.

Með raunfærnimatinu fá menn viðurkennda þekkingu sína og færni, sem þeir hafa aflað sér á vinnumarkaði, á móti áföngum í viðkomandi námi. Fer matið eftir ákveðnu verkferli, þar sem menn meta með aðstoð náms- og starfsráðgjafa, hvaða áfanga þeir eiga möguleika á að fá metna. Sá Björn Hafberg um allan undirbúning og er óhætt að fullyrða að hann eigi mestan heiður af því að svo margir náðu að ljúka matinu með þessari góðu útkomu.

Deila